Hér á eftir fer kafli úr formálanum að fyrstu útgáfu Orðaskrár Íslenska stærðfræðafélagins, en það var ritstjóri hennar, Reynir Axelsson, sem skrifaði hann.
Erfitt er að svara nákvæmlega þeirri spurningu hvenær hafist var handa við Orðaskrá Íslenska stærðfræðafélagsins. Við sem að henni stöndum miðum upphafið oftast við árið 1974, en 9. apríl það ár sendi Jón Ragnar Stefánsson í nafni Íslenska stærðfræðafélagsins bréf til „nokkurs hóps manna“, og fylgdi því listi yfir ensk orð og orðasambönd úr stærðfræðimáli. Bréfið hófst þannig:
Löngum hefur verið ljóst hvílíkur bagi er að því, að hvergi skuli vera skráð á einn stað íslenzk stærðfræðiorð, þau sem hafa áunnið sér fastan sess í málinu svo og þau sem eru einungis á fárra vörum. Þetta veldur ekki einungis því, að notkun ýmissa íslenzkra orða er mjög á reiki og verður jafnvel að grípa til erlendra orða í þeirra stað, svo að ljóst sé við hvað er átt, heldur er einni hætt við, að á því beri um of, að ekki örli á viðleitni til að nota íslenzk orð.
Nokkur misseri eru nú liðin síðan Reynir Axelsson kom að máli við þáverandi stjórnarmenn Stærðfræðafélagsins og lýsti hugmynd sinni um á hvern hátt heilleg orðaskrá yrði unnin á skipulegan hátt. Þótti eðlilegt, að verkið yrði unnið í nafni Stærðfræðafélagsins og hófst Reynir handa við að taka saman enska orðaskrá; lagði hann til grundvallar ritið Mathematics Dictionary eftir James of James (van Nostrand, 3. útg. 1968). Undirritaður fór síðan yfir listann og jók verulega og hefur séð um skráningu hans. Ennfremur hefur Sven Þ. Sigurðsson farið yfir hann og aukið nokkuð.
Með bréfi þessu er farið fram á við nokkurn hóp manna, að hver og einn veiti liðsinni svo að skráin megi verða sem bezt úr garði gerð. Farið er fram á tvennt. Annars vegar, að skráð verði þýðing sem flestra þeirra enskra orða, sem í skránni eru, þýðing sem viðkomandi notar eða telur að nothæf sé. [...] Hins vegar er farið fram á, að aukið verði orðum við hina ensku skrá svo sem ástæða þykir til (að sjálfsögðu má tilgreina orð á öðru máli ef betur hentar) og þýðing látin fyglja með, ef kostur er.
Af þessari tilvitnun má sjá að bréfið átti sér talsverðan aðdraganda; við munum hafa byrjað að útbúa listann á árunum 1972-73. Auk þess sprettur Orðaskráin upp úr eldra starfi, sem var ekki sérstaklega á vegum Stærðfræðafélagsins. Í fórum ritstjórnar Orðaskrárinnar er til dæmis til listi frá nóvember 1964 með stærðfræðiorðum og íslenskum þýðingum þeirra.
Árið 1975 hófumst við Jón Ragnar í sameiningu handa við að fara yfir listana og skrá á seðla þær þýðingar sem borist höfðu. Við orðtókum talsvert af íslenskum ritum um stærðfræði, einkum kennslubækur, og færðum íslensk orð úr þeim inn í seðlasafnið, jafnframt því sem við leituðum að nýyrðum fyrir þau fjölmörgu orð sem enn höfðu ekki fengið viðunandi íslenskar þýðingar. Þetta stóð í nokkur ár. Fyrsta aðalfundarsamþykkt Stærðfræðafélagsins um Orðaskrána er frá desember 1979, en þá var ég formlega skipaður í ritstjórn Orðaskrár Íslenska stærðfræðafélagsins, mér falið að velja mér samstarfsmenn og koma fram fyrir hönd félagsins í þeim málum sem Orðaskrána varðar.
Í fyrstu vorum við Jón Ragnar Stefánsson áfram einir um starfið, en fljótlega fengum við Jakob Yngvason í lið með okkur. Næstu ár héldum við þrír fundi nær vikulega yfir vetrartímann. Fáum árum seinna, eða 1983, bættist Jón Ingólfur Magnússon í hópinn. Í árslok 1987 var tekin ákvörðun um að fjölga verulega í ritstjórn Orðaskrárinnar, og snemma á næsta ári gengu í hana Guðmundur Arnlaugsson, Hermann Þórisson, Kristín Halla Jónsdóttir, Kristján Jónasson, Ragnar Sigurðsson og Robert J. Magnus.
Þessi stækkaða ritstjórn hélt reglulega fundi, oftast nær vikulega nema yfir hásumarið, allt fram til ársins 1992, en þá lauk yfirferð yfir alla skrána. Ritstjórn Orðaskrárinnar hefur notið aðstoðar tveggja íslenskufræðinga fyrir atbeina Íslenskrar málstöðvar: Meðan við vorum einungis þrír í ritstjórninni var Jóhannes Þorsteinsson okkur til fulltingis um tíma, og síðar, þegar ritstjórnin var fullskipuð, sat Sigurður Konráðsson fundi hennar nokkurt skeið.
Síðan 1992 hefur starf að Orðaskránni einkum verið í höndum mín, Ragnars Sigurðssonar og Roberts J. Magnus. Hefur það falist í að ganga frá Orðaskránni til útgáfu ásamt yfirlestri, viðhaldi, viðbótum og margvíslegum öðrum endurbótum á skránni. Við undirbúning úgáfunnar höfum við notið aðstoðar Magnúsar M. Halldórssonar, en hann hefur samið tölvuforrit til að útbúa íslensk-enska orðlykilinn og önur forrit sem hafa hjálpað okkur við leit að villum í skránni. Robert J. Magnus hefur séð um uppsetningu og frágang ritsins, meðal annars samdi hann LaTeX-lykilinn sem stjórnar umbroti þessi.
Margir aðrir hafa veitt okkur aðstoð. Ekki er þess kostur að telja upp alla þá sem hafa komið orðum á framfæri við okkur, en við færum þeim bestu þakkir og biðjum hvern að taka þær til sín. Sérstaklega ber þó að þakka Ottó J. Björnssyni, sem las próförk að ensk-íslensku skránni auk þess sem hann hefur gefið okkur mörg góð ráð um heiti úr tölfræði öll þessi ár, og Ara Páli Kristinssyni, forstöðumanni Íslenskrar málstöðvar, en hann las einnig próförk að skránni.
Eftir að Orðaskránni var farinn að vaxa fiskur um hrygg hefur þeim sem eftir hafa leitað verið veittur aðgangur að henni. Þannig var hún til dæmis notuð við samningu Ensk-íslenskrar orðabókar (Örn og Örlygur, 1984). Árið 1995 var Orðaskráin að undirlagi og með fulltingi Magnúsar M. Halldórssonar gerð aðgengileg á Veraldarvefnum.
Ég vil nota tækifærið og þakka öllum þeim sem að verkinu hafa komið fyrir einkar ánægjulegt samstarf. Sérstaklega vil ég þó minnast þægilegra áhrifa ljúfmennisins Guðmundar Arnlaugssonar á fundi ritstjórnarinnar, en hann lifði því miður ekki að sjá bókina komast á prent.