Um vefútgáfuna
Vefútgáfa orðaskrárinnar var fyrst sett upp haustið 1997 og var samhljóða fyrstu útgáfu hennar. Það var Magnús M. Halldórsson sem átti hugmyndina að henni og sá hann um uppsetningu, hýsingu og viðhald hennar um árabil. Haustið 2008 var vefútgáfan svo flutt á vef félagsins og sá Jóhann Sigurðsson um að koma henni þar fyrir. Þá var jafnframt gengið svo um hnúta að ritstjórn orðaskrárinnar gæti uppfært hana jafn óðum á vefnum og vinnan við hana því nýst strax.
Uppbygging orðaskrárinnar
Um lýsingu á orðaskránni er rétt að vísa í inngang Reynis Axelssonar að fyrstu prentuðu útgáfunni. Í mjög stuttu máli, þá er um að ræða ensk-íslenska stærðfræðiorðaskrá þar sem undir stökum enskum orðum og orðasamböndum eru gefnar íslenskar þýðingar, ensk samheiti og tilvísanir í önnur skyld ensk orð og orðasambönd sem eru í skránni. Þá eru upplýsingar um orðflokk á stökum enskum orðum og athugasemdir fylgja einstaka orðmerkingum og þýðingum.
Einföld orðaleit
Í vefútgáfunni er hægt að leita annaðhvort í ensku orðunum eða þá í íslensku þýðingunum. Er þá einfaldlega gefinn upp leitarstrengur og fást þá allar færslur þar sem leitarstrengurinn kemur fyrir í enska orðinu eða þýðingunum. Ekki er gerður greinarmunur á há- og lágstöfum. Þau orð sem eru með rauðu letri eru enn til athugunar hjá ritstjórn orðaskrárinnar og hafa ekki verið endanlega samþykkt af henni. Hægt er að fletta sérstaklega í þeim hluta skrárinnar sem er í vinnslu, og gefur leitarstrengurinn .* öll slík orð. Þá er hægt að fletta upp lista af enskum orðum, og birtast þá allar færslur orða í orðaskránni sem eru nákvæmlega eins og orð í orðalistanum.
Leitarskilyrði
Auk einfaldrar leitar er hægt að gefa upp leitarskilyrði með reglulegum segðum. Of langt mál væri að gefa tæmandi upplýsingar um þá möguleika sem í því felast hér svo aðeins verður minnst á örfá atriði. Í reglulegri segð hafa nokkur tákn sérstaka merkingu, en það eru ^.[$()|*+?{\. Til að leita að þessum táknum (sem er sérstaklega lítið um í orðaskránni) er hægt að setja öfugt skástrik \ fyrir framan þau svo farið sé með þau sem venjuleg tákn. Hér eru nokkur einföld dæmi um hvernig nota megi reglulegar segðir.
- Punktur . stendur fyrir hvaða staka staf sem er. Þannig mátast "ar." bæði við orðin "arc" og "art".
- Stjarna * þýðir að táknið á undan sé endurtekið 0 sinnum eða oftar. Þannig mátast ".*" til dæmis við alla strengi.
- Plús + þýðir að táknið á undan sé endurtekið 1 sinni eða oftar. Þannig gefur "a+" öll orð sem innihalda bókstafinn "a".
- Spurningarmerki ? þýðir að táknið á undan sé endurtekið 0 eða 1 sinni.
- Ef leitarstrengur er innan sviga, þá er litið á hann sem eina heild. Þannig gefur "(ab)+" öll orð þar sem bókstafirnir "ab" stendur saman a.m.k. einu sinni.
- Táknið ^ stendur fyrir upphaf línu, svo ^ab gefur allar færslur sem byrja á stöfunum "ab".
- Táknið $ stendur fyrir enda línu, svo ab$ gefur allar færslur sem enda á stöfunum "en".
- Hornklofa [] má nota til að tilgreina einn af stöfunum innan þeirra. Þannig gefur "fib[re]*" til dæmis báðar orðmyndirnar "fibre" og "fiber".