Stærðfræðikeppni framhaldsskólanema var fyrst haldin veturinn 1984-1985 og hefur verið árlegur viðburður síðan þá. Að henni standa Íslenska stærðfræðafélagið og Félag raungreinakennara. Markmið hennar er að auka áhuga framhaldsskólanema á stærðfræði og öðrum greinum sem byggja á stærðfræðilegum grunni.
Fyrirkomulag keppninnar
Keppnin er haldin í tvennu lagi á hverjum vetri. Annars vegar er um að ræða forkeppni sem fer fram í október og er á tveimur stigum; neðra og efra stigi. Lengi vel (meðan framhaldsskólinn var 4 ár að jafnaði) var neðra stig einkum ætlað þeim sem voru á fyrstu tveimur árunum í framhaldsskóla en það efra fyrir þá sem voru á síðari tveimur árunum. Haustið 2017 urðu þær breytingar að neðra stig var ætlað nemendum á fyrsta ári (innritun vor eða haust sama ár) og efra stig öllum öðrum. Þeir sem standa sig vel í forkeppninni er svo boðið að taka þátt í úrslitakeppni sem fer fram í mars.
Bréfaskóli
Í aðdraganda úrslitakeppninnar eru sendir út fjórir dæmaskammtar; úr rúmfræði, fléttufræði, talnafræði og algebru, ásamt lesefni. Dæmin eru undirbúningur undir úrslitakeppnina. Hægt er að biðja um að taka þátt í bréfaskóla með því að senda póst á staekeppni hjá gmail.com.
Til hvers er að vinna?
Fyrir utan viðurkenningar og verðlaun fyrir efstu sætin í keppnunum, þá er árangur keppenda hafður til hliðsjónar þegar valdir eru keppendur í Eystrasaltskeppnina í stærðfræði, Norrænu stærðfræðikeppnina og á Ólympíuleikana í stærðfræði, en allar þessar keppnir eru haldnar á hverju ári.
Umsjón
Framkvæmdanefnd fyrir Stærðfræðikeppni framhaldskólanema sér um að skipuleggja keppnina hér innanlands, en hana skipa:
- Atli Fannar Franklín
- Álfheiður Edda Sigurðardóttir
- Hallgrímur Haraldsson
- Jóhanna Eggertsdóttir
- Matthías Andri Hrafnkelsson
- Marteinn Þór Harðarson
- Sigurður Jens Albertsson
- Viktor Már Guðmundsson
Auk þess er Jóhanna Einarsdóttir gjaldkeri og Marteinn Þór Harðarson hefur umsjón með Norrænu keppninni.
Hafa samband
Netfang stærðfræðikeppninnar er staekeppni(hjá)gmail(punktur)com, en einnig má hafa samband beint við nefndarmeðlimi.
Það má líka finna okkur á Facebook.