Hliðarnar í rétthyrndum þríhyrningi $A B C$ hafa lengdir $6, 8, 10$. Hringur með geisla 1 og miðju í $P$ rúllar innan í $A B C$ þannig að hann snertir alltaf eina hlið þríhyrningsins. Hversu langt hefur
punkturinn $P$ farið þegar hringurinn er aftur kominn í upphaflega stöðu?
Lausn
Braut punktsins $P$ er þríhyrningur $A^\circ B^\circ C^\circ$ sem er einslaga
$A B C$. Látum $D$ vera fótpunkt þverilsins á $A B$ gegnum $A^\circ$ og látum
$E$ vera skurðpunkt línunnar gegnum $A^\circ$ og $D$ við strikið $A C$. Setjum
$x=|A D|$ og $y=|A^\circ E|$.
Látum
$F$ vera fótpunkt þverilsins á $A C$ gegnum $A^\circ$. Athugum að þríhyrningarnir $A D E$ og
$A^\circ F E$ eru einslaga $A B C$. Því er
$$
\frac{x}{8}=\frac{|A D|}{|A B|}=\frac{|E D|}{|B C|}=\frac {1+y}6 \quad\quad
\text{ og }
\quad\quad \frac{1}{8}=\frac{|A^\circ F|}{|A B|}=\frac{|A^\circ E|}{|A C|}=\frac{y}{10},
$$
og þar með er
$$
x=\frac{8}{6}\left(1+\frac{10}{8} \right)=3.
$$
Nú sjáum við að $|A^\circ B^\circ|=8-3-1=4$ og þar með er hlutfallið
milli samsvarandi hliða í þríhyrningunum $A^\circ B^\circ C^\circ$ og $A B C$
jafnt $\frac{1}{2}$. Ummál $A^\circ B^\circ C^\circ$ er
þá hálft ummál $A B C$ eða $12$.