Jólafundur Íslenska stærðfræðafélags verður haldinn föstudaginn 27. desember kl. 16:00 í Háskólanum í Reykjavík í stofu V102.
Helgi Tómasson flytur okkur hugvekju um diffur- og mismunajöfnur. Boðið verður upp á jólaöl og bakkelsi.
Útdráttur:
Diffurjöfnur og mismunajöfnur er meðal af tóla stærðfræðinnar sem nota má til að lýsa hreyfimynstri. Slembin diffurjafna lýsir hreyfimynstri sem er einungis að hluta til fyrirsjáanlegt. Hugsanlegt er að nota slíkar jöfnur til að lýsa eðli ýmissa ferla í félags- og náttúruvísindum. Stærðfræðin er oft aðgengilegri ef hreyfimynstrið er skilgreint í samfelldum tíma. Söfnun mælinga á sér stað í strjálum tíma og því þarf einhvers konar tengingu á milli fræðilegs ferlis sem skilgreint er í samfelldum tíma og mælds ferlis sem mælt er í strjálum tímapunktum. Einni útfærslu á slíkri tengingu er lýst með dæmum.
Nánari lýsing á staðsetningu:
Stofa V102 er á fyrstu hæð í Háskólanum í Reykjavík, í Nauthólsvík. Gengið er inn um aðalinngang og í átt að stiganum. Áður en komið er að stiganum er gengið til vinstri og inn gang. Stofa V102 er fjórða hurðin á vinstri hönd.