Eftirtaldir menn hafa verið gerðir heiðursfélagar í Íslenska stærðfræðafélaginu.
Ólafur Dan Daníelsson (1877-1957)
Ólafur tók magisterspróf í stærðfræði við Hafnarháskóla árið 1904, hlaut gullpening skólans 1901 og varði doktorsritgerð árið 1909. Kennari við Kennaraskólann 1908-20. Átti ásamt Þorkatli Þorkelssyni frumkvæði að stofnun stærðfræðideildar við Menntaskólann árið 1919 og var kennari þar 1920-41. Sá ásamt Þorkatli um Almanak fyrir Ísland 1923-51. Tryggingastærðfræðingur hjá Sjóvátryggingarfélagi Íslands 1934-52. Samdi fjölda kennslubóka í stærðfræði og vísindaritgerðir.
Íslenska stærðfræðafélagið var stofnað til heiðurs Ólafi sjötugum árið 1947 og var hann gerður heiðursfélagi árið 1955. Árið 1996 gáfu þeir Guðmundur Arnlaugsson og Sigurður Helgason út rit um Ólaf: Stærðfræðingurinn Ólafur Daníelsson - Saga brautryðjanda.
Leifur Ásgeirsson (1903-1990)
Leifur tók stúdentspróf utanskóla við Menntaskólann í Reykjavík 1927 og tók doktorspróf við háskólann í Göttingen 1933 þar sem Richard Courant var leiðbeinandi hans. Skólastjóri Héraðsskólans á Laugum í Reykjadal 1933-43. Stærðfræðikennari við Háskóla Íslands frá 1943 og prófessor við verkfræðideild skólans frá stofnun hennar 1945. Rannsóknaleyfi við Courant-stofnunina og Kaliforníuháskóla í Berkeley. Forstöðumaður stærðfræðistofu Raunvísindastofnunar frá stofnun hennar 1966. Sat í ritstjórn Mathematica Scandinavica frá stofnun þess 1952. Hann hlaut nafnbót heiðursdoktors við Háskóla Íslands 1988 og þar var efnt til málstofu til minningar um hann 1990.
Leifur var einn helsti hvatamaður að stofnun Íslenska stærðfræðafélagsins 1947 og var gerður heiðursfélagi á sjötugsafmæli sínu 1973. Árið 1998 gaf félagið út minningarrit um Leif en í það skrifaði Jón Ragnar Stefánsson ítarlega um ævi hans og störf.
Sigurður Helgason (f. 1927)
Sigurður tók stúdentspróf við Menntaskólann á Akureyri 1945 og magisterspróf í stærðfræði við Hafnarháskóla 1952 en hann hafði hlotið gullpening skólans 1951. Hann varði doktorsritgerð við Princeton-háskóla 1954 þar sem Salomon Bochner var leiðbeinandi hans. Hann starfaði við Tækniháskóla Massachusetts, Princeton-háskóla, Chicago-háskóla og Columbia-háskóla á árunum 1954-60 en var ráðinn til Tækniháskóla Massachusetts 1959 og hefur verið prófessor þar frá 1965. Rannsóknaleyfi við IAS í Princeton, Mittag-Leffler-stofnunina og Hafnarháskóla.
Sigurður hefur hlotið margskonar viðurkenningar fyrir störf sín. Meðal annars nafnbót heiðursdoktors við Háskóla Íslands 1986, Hafnarháskóla 1988 og Uppsalaháskóla 1996. Hann var valinn í Vísindafélag Íslendinga 1960, Bandarísku lista- og vísindaakademíuna 1970 og Danska vísindafélgið 1972. Hann hlaut Børge Jessen-verðlaun danska stærðfræðifélagsins 1982, Steele-verðlaun bandaríska stærðfræðifélagsins 1988 og stórriddarakross íslensku fálkaorðunnar 1991. Haldnar voru ráðstefnur til heiðurs honum á 65 ára afmæli hans 1992 í Hróarskeldu og á 80 ára afmæli hans 2007 í Reykjavík.
Sigurður var gerður heiðursfélagi í Íslenska stærðfræðafélaginu þegar hann varð sjötugur og var þá jafnframt efnt til málþings honum til heiðurs.