1. grein
Félagið heitir Íslenska stærðfræðafélagið. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.
2. grein
Tilgangur félagsins er að:
- Vera vettvangur faglegrar umræðu fyrir stærðfræðinga og annað áhugafólk um stærðfræði.
- Kynna og efla stærðfræðirannsóknir á Íslandi.
- Efla stærðfræðimenntun og almenna stærðfræðiþekkingu á Íslandi.
- Efla samskipti stærðfræðinga innan lands sem utan og koma fram fyrir hönd félagsmanna gagnvart skyldum erlendum félagasamtökum.
3. grein
Félagar geta þeir orðið sem hafa lokið háskólaprófi í stærðfræði eða skyldum greinum og er þá miðað við a.m.k. þriggja ára háskólanám að loknu stúdentsprófi. Beiðni um inngöngu í félagið skal vera skrifleg til stjórnar félagsins.
4. grein
Heiðursfélaga er hægt að kjósa þá sem hafa unnið framúrskarandi starf að markmiðum félagsins. Heiðursfélagar eru kosnir ævilangt og greiða ekki félagsgjöld. Sérhverjir 10 félagsmenn geta gert tillögu um heiðursfélaga til stjórnar félagsins. Þá skal boðað til almenns félagsfundar þar sem tillagan er borin undir atkvæði félagsmanna. Til slíks fundar skal boðað með viku fyrirvara og skal tillagan fylgja fundarboðinu.
5. grein
Stjórn félagsins skal skipuð fimm félagsmönnum, þ.e. formanni og fjórum meðstjórnendum. Formaður skal kosinn til eins árs á hverjum aðalfundi en meðstjórnendur, svo margir sem þarf, til tveggja ára. Formaður annast daglega umsjón félagsins og boðar stjórnarmenn á stjórnarfundi þegar þurfa þykir. Firmaritun félagsins er í höndum stjórnarinnar sameiginlega.
6. grein
Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins og skal halda í janúar ár hvert. Aðalfund skal boða með viku fyrirvara. Aðeins félagsmenn mega taka þátt í störfum aðalfundar og ræður einfaldur meirihluti atkvæða. Tillögum um lagabreytingar skal koma skriflega til stjórnar eigi síðar en 1. janúar og skulu þær fylgja fundarboði aðalfundar.
7. grein
Dagskrá aðalfundar er sem hér segir:
- Kosning fundarstjóra og fundarritara.
- Skýrsla stjórnar flutt.
- Endurskoðaðir reikningar lagðir fram til afgreiðslu.
- Lagabreytingar ef við á.
- Umsóknir um félagsaðild bornar upp.
- Kosning stjórnarmanna.
- Kosning skoðunarmanns reikninga.
- Ákvörðun árgjalds.
- Önnur mál.
8. grein
Stjórn getur boðað til aukaaðalfundar ef þörf er á. Æski 10 félagsmenn þess skriflega, er stjórn skylt að kalla saman aukaaðalfund. Aukaaðalfund skal boða á sama hátt og aðalfund.
9. grein
Félagsmenn greiða árgjald félagsins og skal það innheimt árlega samkvæmt nánari ákvörðun aðalfundar. Greiði félagsmaður ekki árgjald þrjú ár í röð jafngildir það úrsögn úr félaginu.
10. grein
Reikningsár félagsins er almanaksárið. Rekstrarafgangur félagsins við ársuppgjör skal renna í félagið sjálft.
11. grein
Ákvörðun um slit félagsins skal tekin á aðalfundi með einföldum meirihluta og renna eignir þess til Raunvísindastofnunar Háskólans.
Lög þessi voru samþykkt á aðalfundi Íslenska stærðfræðafélagsins 12. janúar 2010, en félagslög voru áður óskráð. Félagið var stofnað 31. október 1947 og byggðist starfsemi þess alla tíð á samþykktum aðalfunda, svo sem hefð komst á.
Viðhengi | Stærð |
---|---|
login.pdf | 38.29 KB |