Fundurinn hefst kl. 16:45 í stofu VR-157 í VR-II við Hjarðarhaga með hefðbundnum kaffiveitingum, en kl 17:15 heldur Robert Magnus erindi sem ber yfirskriftina „Díófantískar nálganir og óleysanleg verkefni alffræðinnar“.
Robert lýsir efni erindisins á eftirfarandi hátt: Díophantískar nálganir fjalla um ræðar nálganir á óræðum tölum. Sér í lagi er athugað hversu lítilli skekkju sé hægt að ná miðað við stærð nefnara nálgunarbrotsins. Það kemur í ljós að ekki eru allar óræðar tölur jafnt auðveldar að nálga. Þar eru algebrulegar tölur verstar (og mjög fræg tala verst af öllum). Með torræðar tölur er unnt að ná meiri nákvæmni með minni nefnurum.
Síðan munum við skoða hvernig þetta mjög svo hreinstærðfræðilega viðfanfsefni varð mikilvægt við að leysa, eða að minnsta kosti varpa ljósi á, áður óleyst verkefni í hreyfikerfum og alffræði.
Fyrirlesturinn er hugsaður fyrir breiðan hóp og eru félagsmenn því eindregið hvattir til að mæta.