Fundur verður haldinn í félaginu þriðjudaginn 23. janúar í stofu V-157 í VR-II við Hjarðarhaga. Að venju hefst fundurinn með kaffidrykkju kl 16:45, en kl 17:00 heldur Kristín Halla Jónsdóttir, dósent emeritus við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, fyrirlestur sem hún gefur yfirskriftina: Kunnu Grikkir algebru?
Í erindinu verður stiklað á stóru í frásögn um 40 ára ritdeilu stærðfræðinga og vísindasagnfræðinga sem snerist um túlkun á efni Bókar II í Frumatriðum Evklíðs.
Um fyrirlesarann: Kristín Halla Jónsdóttir lauk doktorsprófi frá University of Houston árið 1975 og er fyrsti íslenski kvendoktorinn í stærðfræði. Aðalgreinar hennar voru algebra og grannfræði. Kristín Halla starfaði við Háskóla Íslands sem sérfræðingur og aðjúnkt, fluttist svo í Kennaraháskólann sem lektor 1977 og síðar dósent 1985 og frá 2008 sem dósent við Menntavísindasvið þegar KHÍ sameinaðist HÍ. Fyrir Íslenska stærðfræðafélagið hefur Kristín Halla starfað sem formaður 1979-1981 og er eini kvenformaðurinn sem við höfum haft í félaginu, en á vegum félagsins hefur hún einnig komið að þjálfun og dómnefndarstörfum vegna Ólympíuleika í stærðfræði og sinnt störfum í orðaskrárnefnd.
Verið öll hjartanlega velkomin!