Fundur verður haldinn í félaginu miðvikudaginn 28. febrúar í stofu V-157 í VR-II við Hjarðarhaga. Að venju hefst fundurinn með kaffidrykkju kl 16:45, en kl 17:00 heldur Indriði Einarsson, fyrirlestur sem hann nefnir Næmnigreining á mælingu þyngdarsviðsins með gervihnöttum.
Um erindið: Þessa dagana er verið að leggja lokahönd á þýsk-amerísku gervihnettina GRACE Follow-On (GRACE-FO : https://gracefo.jpl.nasa.gov/), og verður hnöttunum tveimur skotið á loft í apríl. Forveri þeirra, GRACE (Gravity Recovery And Climate Experiment), hefur veitt upplýsingar um breytingar á þyngdarsviði jarðar (og þar með massahreyfingar á jörðinni, t.d. bráðnun eða vöxt jökla) síðan 2002. Fjallað verður um næmnigreiningu á þessum mælingum. Þróaðar voru aðferðir til að nota stefnuvirka wavelet vörpun til að greina "stefnuhneigð" í mæliskekkjunum, en hún kemur fram sem sterkar rendur, einkum í N/S stefnu. Hermdar voru mismunandi uppsetningar á gervihnöttunum tveimur, og væntar mæliskekkjur greindar með ofangreindri wavelet-vörpun, og þá sérstaklega með tilliti til stefnuhneigðar.
Um fyrirlesarann: Indriði Einarsson lauk doktorsprófi í hagnýtri jarðvísindastærðfræði við Háskólann í Bonn í Þýskalandi árið 2011. Hann starfar nú hjá hugbúnaðarþróunarfyrirtækinu Kvikna í Reykjavík.
Verið öll hjartanlega velkomin!