Fundur verður haldinn í félaginu þann 7. febrúar í stofu V-158 í VR-II við Hjarðarhaga. Að venju hefst fundurinn með kaffidrykkju kl 16:45, en kl 17:00 heldur Auðunn Skúta Snæbjarnarson fyrirlestur sem hann nefnir Margliður, Stein víðáttur og fjölundirþýð föll.
Ágrip: Við byrjum þennan fyrirlestur á því að tala um hinar ýmsu setningar um nálganir á fáguðum föllum með margliðum í tvinntalnarúminu. Setningar á borð við Runge og Oka-Weil hafa reynst gríðarlega mikilvægar í tvinnfallagreiningu og þess vegna er eftirsóknarvert að geta alhæft þessar setningar yfir á almennari tvinnvíðáttur. Í þessu samhengi þá kynnum við Stein víðáttur til sögunnar. Einn helsti eiginleiki Stein víðáttu er sá að á henni lifir ógrynni af fáguðum föllum og þess vegna er hægt að setja fram ýmsar nálgunarsetningar á slíkri víðáttu. Það er hins vegar ekki augljóst hvaða fáguðu föll við eigum að kalla ,,margliður'' á Stein víðáttu. Áður en að við getum skilgreint margliður þá þurfum við að tala um fjölundirþýð föll og helstu eiginleika þeirra.
Allir velkomnir.