Fundurinn hefst með veitingum að hefðbundnum hætti frá kl. 16:45.
Að þeim loknum, eða klukkan 17:15, flytur Hannes Helgason erindi sem hann nefnir: Stikalausar aðferðir við mat og leit á hásveiflandi merkjum.
Við skoðum tölfræðilegt verkefni sem snýr að leit og mati á hásveiflandi merkjum í mælingum sem innihalda suð. Slík merki er algengt að finna í náttúrunni og þau skjóta oft upp kollinum í vísindalegum og verkfræðilegum verkefnum. Með ritmáli stærðfræðinnar má skrifa slík föll sem f(t)=A(t) exp(i*L*g(t)), þar sem L er stór fasti ("grunntíðni"), fasafallið g(t) er háð tímanum t, og hjúpurinn A(t) breytist hægt með tíma.
Við fjöllum um nýjar og sveigjanlegar aðferðir til þess glíma við þessi verkefni. Þær flétta meðal annars saman hugmyndum úr þýðri fallagreiningu og bestunaðferðum í flæðinetum og voru þróaðar í doktorsverkefni mínu undir handleiðslu prófessor Emmanuel Candes við Caltech.
Hannes Helgason útkrifaðist með BS próf frá rafmagnsverkfræði- og stærðfræðiskor Háskóla Íslands vorið 2001 og lauk doktorsprófi í reiknifræði og heimfærðri stærðfræði frá Caltech í júní 2008.
Fyrir doktorsverkefni sitt hlaut Hannes verðlaun W. P. Carey í heimfærðri stærðfræði.