Í kjölfar umræðu í þjóðfélaginu um stöðu íslensku í kennaranámi við Háskóla Íslands hefur stjórn Íslenska stærðfræðafélagsins komið eftirfarandi á framfæri við stjórn Menntavísindasviðs Háskóla Íslands.
Efni: Staða faggreina í almennu kennaranámi við Háskóla Íslands.
Stjórn Íslenska stærðfræðafélagsins tekur undir gagnrýni íslenskukennara við Menntavísinda- og Hugvísindasvið Háskóla Íslands og lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu faggreina í almennri kennaramenntun við Háskóla Íslands.
Á síðustu áratugum hefur fjöldi rannsókna kannað áhrif hæfni kennara á námsárangur barna. Hvað stærðfræði varðar, þá hefur komið í ljós að sértæk þekking kennara á þeirri stærðfræði sem þeir kenna hefur afgerandi áhrif á árangur nemenda í stærðfræðinámi. Rannsóknir Deborah Ball og félaga við Michigan háskóla á síðustu 10 árum hafa t.a.m. sýnt, að í 1.—3. bekk skýri þessi þáttur 12—14% af mismunandi árangri nemenda í hverjum bekk. Þær hafa einnig sýnt að árangur nemenda sem njóta hæfra kennara að þessu leyti öll þrjú árin, er að meðaltali betri en 83% allra nemenda við lok 5. bekkjar. Þeir nemendur sem á sama tíma sitja uppi með vankunnandi kennara hvað þetta varðar ná hinsvegar aðeins 29% nemenda. Hlutar þessara rannsókna hafa verið gerðir í öðrum löndum, þar á meðal í Noregi, og hafa þær gefið sambærilegar niðurstöður.
Í núverandi skipulagi Menntavísindasviðs fá kennaranemar sem stefna á kennslu í yngstu bekkjum grunnskóla enga leiðsögn um þá stærðfræði sem þeir eiga eftir að kenna og hvernig megi nálgast hana við kennslu. Þeir búa því tæpast yfir nokkurri sértækri þekkingu á því sviði.