Miðvikudaginn 29. desember kl 17 mun Elvar Wang Atlason halda fyrirlestur á jólafundi stærðfræðafélagsins.
Elvar er þriðja árs nemi í stærðfræði við Háskólann í Cambridge. Samhliða námi safnar hann rúmfræðilegum staðreyndum, og hefur lofað að deila nokkrum þeirra með okkur.
Titill: Ljósmynstur í bollum
Ágrip: Flest höfum við séð hjartalaga ljósrákir í botni bolla. Til að útskýra þetta fyrirbæri ræðum við um hjúpferla, endurskin og hjólferla. Við vörpum ljósi á stærðfræðina í hversdagsleikanum, og í leiðinni kynnumst við sniðugum aðferðum til að brjóta saman pappír. Þetta eru tilvalin umræðuefni í áramótaveisluna, svo það er um að gera að mæta.
Því miður gefst okkur ekki færi á að bjóða gestum á staðinn en fyrirlesturinn mun fara fram í streymi á Zoom á hlekk sem sendur var á póstlista félagsmanna.