Dagana 14-18. nóvember fór Eystrasaltskeppnin í stærðfræði fram í Tartu í Eistlandi. Keppnin dregur að sér ungt og efnilegt stærðfræðifólk frá öllum löndum við Eystrasalt, auk Íslands, Noregs og eins gestalands sem í ár var Úkraína.
Lið Íslands þetta árið skipuðu: Jóakim Uni Arnaldarson, Merkúr Máni Hermannsson, Sigurður Baldvin Ólafsson, Snædís Jökulsdóttir og Víkingur Þorri Reykjalín Sigurðsson. Liðstjórar voru Sigurður Jens Albertsson og Viktor Már Guðmundsson. Keppendur glímdu við 20 krefjandi stærðfræðiþrautir á fjórum og hálfum tíma. Sigurvegari þessa árs var Pólland með 77 stig af 100.
Fyrir utan keppnina nutu þátttakendur fjölbreyttrar dagskrár, þar sem meðal annars var farið í skoðunarferð um Tartu, heimsótt Þjóðarsafn Eistlands og keppt í keilu. Ferðin reyndist bæði skemmtileg og lærdómsrík fyrir alla sem tóku þátt.