Fimmtudaginn 24. október mun Olivier Moschetta við Háskólann í Reykjavík flytja erindi um drefiföll og notkun þeirra. Fyrirlesturinn hefst klukkan 17.00 í VR-2, stofu 261 í HÍ. Eins og venja er mun vera heitt á könnunni frá 16.30.
Ágrip: Dreififöll útvíkka fallshugtakið í stærðfræðigreiningu og eru víða notuð til að finna svokallaðar veikar lausnir á hlutafleiðujöfnu þegar er erfitt að sanna tilvist klassískra lausna. Dreififöll koma einnig oft til máls í ósamfelldum verkefnum í eðlisfræði þar sem lausnir eru ekki venjuleg föll (til dæmis Dirac málið). Dreififöll má rekja til svokallaðra Green falla en veikar lausnir hlutafleiðujafna má finna í verkum Sergei Sobolev (ca 1935). Franski stærðfræðingurinn Laurent Schwartz skilgreindi svo dreififöll í almennari ramma stuttu síðar og hlaut Fields verðlaun árið 1950 fyrir þau verk.
Í þessum fyrirlestri verður farið yfir sögulegt samhengi og helstu skilgreiningar. Við tengjum dreififöll við ýmis þekkt viðfangsefni í stærðfræðigreiningunni og sýnum dæmi um hagnýtingu dreififalla á sviði hlutafleiðujafna og líkindafræði.