Skip to Content

Látum \[a x^2+b x+ c,\qquad a\neq 0\] vera margliðu af stigi $2$ yfir rauntölurnar. Núllstöðvar margliðunnar eru lausnir jöfnunnar \[ax^2+bx+c=0.\] Þær má finna með því að fylla í ferninginn. Þá fæst að ofangreind jafna er jafngild jöfnunni \[a\left(x+\frac{b}{2a}\right)^2-\frac{d}{4a}=0\] eða \[\left(x+\frac{b}{2a}\right)^2=\frac{d}{4a^2}\] þar sem $d=b^2-4ac$. Talan $d$ kallast aðgreinir margliðunnar. Hann ákvarðar núllstöðvar hennar yfir rauntölurnar með eftirfarandi hætti:

  • $d\lt 0$:  Ekki er til rauntölulausn á jöfnunni, því ferningur rauntölu er alltaf jákvæð tala. Margliðan hefur því enga núllstöð yfir rauntölurnar.

  • $d=0$:   Til er ein lausn á jöfnunni og er hún gefin með $r=\frac{-b}{2a}$. Þá er $r$ tvöföld núllstöð margliðunnar.

  • $d\gt 0$:   Til eru tvær lausnir á jöfnunni og eru þær gefnar með \[r_{1}=\frac{-b + \sqrt{d}}{2a}\quad\text{og}\quad r_{2} = \frac{-b - \sqrt{d}}{2a}.\] Margliðan hefur því tvær einfaldar núllstöðvar.

Dæmi:  

  • Annars stigs margliðan $x^2-x-2=0$ hefur tvær núllstöðvar því aðgreinir hennar er $d=(-1)^2-4\cdot 1 \cdot (-2)=9$. Núllstöðvar hennar eru því $r_{1}=\frac{-(-1)+\sqrt{9}}{2}=2$ og $r_{2}=\frac{-(-1)-\sqrt{9}}{2}=-1$

  • Annars stigs margliðan $x^2+1=0$ hefur enga núllstöð því að aðgreinir hennar er $d=0^2-4 \cdot 1 \cdot 1=-4$

  • Annars stigs margliðan $2x^2-4x+2=0$ hefur eina núllstöð því aðgreinir hennar er $d=(-4)^2-4\cdot 2 \cdot 2=0$. Núllstöð hennar er því $r=\frac{-(-4)}{2 \cdot 2}=1$.

Algebra
Margliður