Mengjamunur tveggja mengja $A$ og $B$ er mengi þeirra staka sem eru í $A$ en ekki í $B$. Þetta mengi er táknað með $A \setminus B$ (lesið: $A$ án $B$) og það má rita á forminu
\[
A \setminus B = \{x \in A \mid x \notin B\}.
\]
Óformlega má segja að mengjamunurinn $A \setminus B$ sé sá hluti mengisins $A$ sem er utan mengisins $B$ og á Venn-myndinni hér að neðan er hann litaður rauður.
Fyrir öll mengi $A$ og $B$ má rita mengjamuninn $A \setminus B$ sem sniðmengi $A$ og fyllimengis $B$, þ.e. \[ A \setminus B = A \cap B^c. \] Jafnframt gildir fyrir öll mengi $A$ að $A \setminus \varnothing = A$ og $A \setminus A = \varnothing$.
Dæmi: Ef $A = \{1,3,5,7\}$ og $B = \{2,3,5,6\}$, þá er $A \setminus B = \{1,7\}$.
Dæmi: Ef $A = \{\ldots,-3,-2,-1,0\}$ og $B = \{0,1,2,3,\ldots\}$, þá er $A \setminus B = \{\ldots,-3,-2,-1\}$.